Um Tölvuorðasafnið 4. útgáfu

Hér er vefaðgangur að 4. útgáfu Tölvuorðasafns sem kom út á prenti í ágúst 2005. Orðanefnd Skýrslutæknifélagsins tók saman efni í bókina eins og fyrri útgáfur og ritstjóri var Stefán Briem. Í þessari fjórðu útgáfu eru um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti á rúmlega 6500 hugtökum sem lúta að upplýsingatækni og tölvunotkun. Útgáfan er í tveimur hlutum. Annar hlutinn er íslensk-ensk orðaskrá og er þar að finna skilgreiningar og útskýringar á flestum hugtökunum. Hinn hlutinn er ensk-íslensk orðaskrá. Þar er íslensk þýðing við hvert orð og er hún hugsuð sem tilvísun til íslensk-enska hlutans.

Í vefútgáfunni má leita að enskum og íslenskum heitum. Sé leitað að íslensku heiti sem er aðalheiti á hugtaki birtast allar upplýsingar um hugtakið sem það á við. Sé leitað að íslensku heiti sem er samheiti birtist aðalheitið og má þá smella á það til þess að fá allar upplýsingar um hugtakið. Sé leitað að ensku heiti birtist íslenskt aðalheiti hugtaksins sem það á við og má smella á það til þess að fá allar upplýsingar um hugtakið.

Útgefandi þessarar útgáfu Tölvuorðasafns er Hið íslenska bókmenntafélag í samvinnu við orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands. Bókina er unnt að nálgast hjá helstu bókaverslunum og hjá útgefanda, en þar má panta hana með forlagsafslætti í hib@islandia.is.

Nefndin vill þakka Hjálmari Gíslasyni hjá Já-Spurl fyrir rausnarlegt framlag við gerð vefviðmótsins og þakkar honum og Viðari Mássyni fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf við gerð þess.