Sagan

Fljótlega eftir stofnun Skýrslutæknifélags Íslands var hafist handa um að safna íslenskum orðum um tölvur og gagnavinnslu og þýða erlend orð. Í þessu skyni var stofnuð orðanefnd á vegum félagsins árið 1968. Árið 1974 gaf nefndin út sem handrit tölvuprentaðan orðalista, Skrá yfir orð og hugtök varðandi gagnavinnslu, en nefndin hafði áður sent frá sér stutta óformlega orðaskrá.

Á tímabilinu frá 1978 til þessa dags hafa fjórir einstaklingar starfað í nefndinni, þau Baldur Jónsson, Sigrún Helgadóttir (formaður), Þorsteinn Sæmundsson og Örn Kaldalóns. Þessi samstarfshópur tók saman efni í fjórar útgáfur Tölvuorðasafns. Fyrsta útgáfan var gefin út 1983 og hafði að geyma rösklega 700 hugtök með tæplega 1000 íslenskum heitum og rösklega 1000 enskum heitum. Engar skilgreiningar eða skýringar fylgdu hugtökunum. Árið 1986 gaf nefndin út aðra útgáfu orðasafnsins. Nú voru hugtökin tæplega 2600 og þeim fylgdu um 3100 íslensk heiti og nær 3400 ensk heiti. Í þetta sinn fylgdu skilgreiningar, skýringar og dæmi þar sem það átti við. Ritstjóri þessarar útgáfu var Sigrún Helgadóttir. Þriðja útgáfa orðasafnsins var gefin út 1997 og hafði þá að geyma um 5800 íslensk heiti og um 6500 ensk heiti á rúmlega 5000 hugtökum. Flestum hugtökum fylgdu skilgreiningar og skýringar. Ritstjóri þriðju útgáfu var Stefán Briem. Fjórða útgáfan var gefin út 2005. Þá voru hugtökin orðin um 6500 og þeim fylgdu um 7700 íslensk heiti og um 8500 ensk heiti. Skilgreiningar og skýringar fylgdu eins og áður flestum hugtökum. Ritstjóri var Stefán Briem.

Baldur Jónsson lést sumarið 2009. Var þá ákveðið að vinna úr því efni sem safnast hafði eftir að fjórða útgáfan kom út. Árangur af því starfi birtist nú (2013) sem fimmta útgáfa sem eingöngu er rafræn og er aðgengileg til leitar á þessu vefsetri. Hugtökum hefur fjölgað um 3,8% og einnig hafa verið gerðar minni háttar lagfæringar og breytingar á því efni sem fyrir var í safninu. Stefán Briem hefur aðstoðað orðanefndina við frágang á efninu fyrir leitarvefinn og til prentunar orðasafnsins sem PDF-skjal.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar var opnaður í nóvember 1997. Þriðja útgáfa Tölvuorðasafnsins var með fyrstu orðasöfnum sem aðgengileg voru í orðabankanum. Við opnun bankans var þar bráðabirgðaútgáfa sem síðan var uppfærð þegar orðasafnið kom út snemma árs 1998. Ekki tókst að koma fjórðu útgáfunni inn í orðabankann sem nú heitir Íðorðabankinn.

Árið 2006 var fjórðu útgáfu Tölvuorðasafnsins komið fyrir til leitar á þessum vef. Það gerðu starfsmenn fyrirtækisins Spurl, aðallega Viðar Másson. Viðar starfar nú hjá fyrirtækinu Datamarket og hefur einnig séð um að koma fimmtu útgáfunni fyrir á vefsetrinu til leitar.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um fyrri útgáfur Tölvuorðasafnsins:

Fyrri útgáfur

Fjórða útgáfa 2005
Þriðja útgáfa 1998
Önnur útgáfa 1986
Fyrsta útgáfa 1983