Inngangur að 3. útgáfu

Val á hugtökum

Við gerð Tölvuorðasafns hefur frá upphafi einkum verið stuðst við skrá um hugtök í upplýsingatækni (ISO/IEC 2382) frá Alþjóðlegu staðlasamtökunum (ISO) og Alþjóða raftækniráðinu (IEC) eins og getið er um í formála. Þessi skrá er nú í 37 köflum og í sífelldri endurskoðun. Sumir kaflanna hafa verið gefnir út sem staðall. Flest hugtök í þessari skrá hafa verið tekin með í Tölvuorðasafn, en auk þeirra fjölmörg hugtök úr tölvuorðabókum og öðrum ritum um tölvumálefni og upplýsingatækni. Einnig hefur verið aflað nýrra hugtaka á Lýðnetinu, einkum úr FOLDOC (Free On-Line Dictionary Of Computing) sem frjáls aðgangur er að á veraldarvefnum. Við val á hugtökum hefur enn fremur verið stuðst við ábendingar frá sérfræðingum og fyrirspurnir sem orðanefndinni hafa borist.

Þeirri meginreglu hefur verið fylgt við endurskoðun Tölvuorðasafns að halda í sem flest eldri hugtök af sögulegum ástæðum. Þess vegna eru t.d. enn í bókinni hugtök sem lúta að notkun gataspjalda þó að þau séu ekki lengur notuð. Nokkrum hugtökum, sem voru í fyrri útgáfum, hefur þó verið sleppt nú, af því að þau hafa sennilega aldrei verið mikið notuð og eru ekki skráð í nýjum tölvuorðabókum.

Flest hugtök, sem tengjast upplýsingatækni og notkun tölva, eiga upptök sín í Bandaríkjum Norður-Ameríku og hafa mótast í hugum manna sem mæla á enska tungu og lifa í öðru menningarsamfélagi en Íslendingar. Sum þessara hugtaka falla illa að íslensku, m.a. af því að sagnorð eru mun meira notuð í íslensku en ensku. Orðanefnd hefur þó lagt sig fram um að tína til íslensk heiti á sem flest þessi framandi hugtök, svo að Tölvuorðasafn geti einnig nýst þeim til skilnings sem vilja nota orðasafnið til að fletta upp orðum sem verða á vegi þeirra í enskum texta um tölvumál. Stundum gegnir íslenskt heiti því varla öðru hlutverki en að vera skýring á ensku heiti sama hugtaks. Það fellur svo í hlut þýðenda að umsemja textann á íslensku.

Heiti hugtaka

Íslensk heiti á hugtökum í orðasafni þessu, þ.e. íðorðin sjálf, eru víða að komin. Mörg þeirra eru almennt notuð og hafa fest sig í sessi í íslensku máli. Sum heiti eru fengin úr íðorðasöfnum annarra fræðigreina sem skarast við upplýsingatækni. Önnur heiti hefur orðanefndin valið sem henni hafa borist til eyrna og litist vel á og enn önnur hefur nefndin tínt til úr nýju máli og fornu og léð nýjamerkingu. Að lokum eru ýmis heiti sem hafa orðið til á fundum orðanefndar og hún hefur sett saman úr öðrum orðum eða frumsamið. Þrautalendingin er sú að nota tökuorð en þá er reynt að laga orðin að íslensku beygingakerfi og öðrum íslenskum málkröfum. Stundum hefur það þó ekki tekist og sitjum við þá uppi með erlend sérnöfn og erlendar skammstafanir.

Helstu íðorðasöfn annarra fræðigreina, sem stuðst var við, eru Orðaskrá Íslenska stærðfræðafélagsins, Orðasafn úr tölfræði, Orðaskrá um eðlisfræði og skyldar greinar, Flugorðasafn og Orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði. Einnig var stuðst við Orðaskrá yfir tölvuorð frá 1991. Magnús Már Halldórsson lagði Tölvuorðasafninu öflugt lið, m.a. með vélrænum samanburði við stærðfræðiorðasafnið.Sá samanburður leiddi af sér einkar gagnlega samræmingu á heitum margra hugtaka. Orðabanki Íslenskrar málstöðvar, sem getið er um í formála, auðveldar mjög samanburð við önnur íðorðasöfn og gafst kostur á að nýta þann möguleika lítillega fyrir útgáfu þessarar bókar.

Alloft kemur fyrir að sama heiti er notað í fleiri en einni merkingu eða að tvö eða fleiri heiti hafa sömu nefnimynd þó að þau geti verið sitt úr hverjum orðflokki. Þetta á við bæði um íslensk heiti og ensk. Til þess að greina á milli merkinganna eru þessi heiti tölusett og auðkennd með brjóstletruðum tölustaf þar sem ástæða þykir til.

Skilgreiningar, skýringar og dæmi

Langflestum hugtökum í bókinni fylgir skilgreining. Við samningu skilgreininga var farið eftir ISO/IEC-staðlinum þar sem þess var kostur. Skilgreiningum fylgja stundum nánari skýringar eða dæmi eða hvort tveggja. Skáletruð orð í skilgreiningum, skýringum og dæmum er aðfinna sem flettiorð í bókinni. Hvert heiti er aðeins skáletrað einu sinni í hverri orðsgrein. Oftast eru það aðalheiti sem eru skáletruð en frá því eru þó örfáar undantekningar þar sem notuð eru samheiti sem teljast vera styttingar á aðalheitunum, t.d. ílag fyrir ílagsgögn.

Við samningu skilgreiningar takast einkum á tvö sjónarmið. Annars vegar er stefnt að því að skilgreina hugtökin af þeirri nákvæmni að sérfræðingar og aðrir, sem lesa og skrifa um upplýsingatækni, geti skilið hver annan og fjallað um þessi málefni á vandaðan hátt. Hins vegar er æskilegt fyrir almenna tölvunotendur að geta gengið að hverju hugtaki í bókinni og fengið á því auðskilda og sjálfstæða skilgreiningu.

Fyrra sjónarmiðið er allsráðandi hjá ISO/IEC sem leggur til efniviðinn í skilgreiningarnar að mestu leyti. Frá ISO/IEC berast skilgreiningarnar bæði á ensku og frönsku. Byrjað er á að þýða þær á íslensku en síðan hugað að því hvort útkoman sé nógu góð. Venjulega eru í hverri skilgreiningu tilvísanir til eins eða fleiri annarra hugtaka, sýndar með skáletruðum íðorðum. Vilji lesandinn fá fullkominn skilning á hugtakinu getur hann þurft að rekja sig gegnum skilgreiningar margra hugtaka með stuðningi skáletruðu heitanna. Í þeirri gerð Tölvuorðasafns, sem aðgangur er að í orðabanka Íslenskrar málstöðvar á Lýð-netinu, eru þau heiti auðkennd með lit og undirstrikun sem í bókinni eru ská- letruð. Notandinn getur smellt á þessi heiti á tölvuskjánum til þess að rekja sig áfram til annarra skilgreininga.

Til þess að koma til móts við almenna tölvunotendur hafa sumar skilgreiningar verið samdar að nýju og gerðar sjálfstæðari með því að fækka tilvísunum í aðrar skilgreiningar. Þá hefur jafnan þurft að gæta þess að það komi ekki um of niður á nákvæmni skilgreininganna.

Íslensk-ensk orðaskrá

Í fyrri hluta bókarinnar er íslensk-ensk orðaskrá og er þar að finna alla þá vitneskju sem bókin veitir um hvert hugtak. Sumum hugtökum eru gefin fleiri en eitt samheiti og er þeim raðað í virðingarröð orðanefndar innan orðsgreinar. Í örfáum tilvikum hefur verið sett spurningarmerki við íslenskt heiti. Það er gert til þess að sýna að heitið þyki af einhverjum ástæðum ekki heppilegt, enda þótt það sé tilgreint. Samheiti, sem fylgja aðalheiti, geta, að mati orðanefndar, verið allt frá því að vera næstum því jafngóð og aðalheitið til þess að vera fremur óæskileg, en eru þá nefnd t.d. af því að þau eru eða hafa verið mikið notuð og talið ófært að ekki sé unnt að fletta þeim upp. Fáeinum slíkum heitum eða ritunarafbrigðum hefur verið sleppt þótt vitað sé að einhverjir nota þau. Tökuorðið kóti, sem samsvarar enska orðinu code, kemur fyrir í nokkrum merkingum í þessari bók og er eingöngu ritað þannig þó að orðanefnd sé kunnugt um að sumir kjósa frekar ritháttinn kóði eða jafnvel kódi.

Ensk-íslensk orðaskrá

Í seinni hluta bókarinnar er ensk-íslensk orðaskrá. Hverju ensku heiti þar fylgir aðeins eitt íslenskt heiti. Það ber að taka sem tilvísun til íslensk-enska hlutans þar sem íslensk samheiti geta verið við aðalheitið. Í örfáum tilvikum hefur verið sett spurningarmerki við enskt samheiti. Það er gert til þess að sýna að heitið þyki annaðhvort úrelt eða óheppilegt til notkunar í þeirri merkingu sem um er að ræða.

Við ritun enskra heita er í bókinni fylgt þeirri stafsetningu sem tíðkast í Norður-Ameríku. Þetta þarf að hafa í huga, bæði þegar flett er upp í ensk- íslensku orðaskránni og þegar bókin er notuð til að finna enskar þýðingar á íslenskum heitum hugtaka.Smámunur er á enskri stafsetningu í Norður-Ameríku og í Stóra-Bretlandi og kemur hann einkum fram í tvennu. Orð, sem hafa við- liðinn „-or“ í ensku Norður-Ameríku, hafa stundum viðliðinn „-our“ í ensku Stóra-Bretlands,t.d. color : colour.Sagnir,sem enda á „-ize“ í Norður-Ameríku, enda oft á „-ise“ í Stóra-Bretlandi, t.d. initialize : initialise. Þessi munur getur haldist í afleiddum myndum orðanna, t.d. initialization : initialisation.

Annað tilbrigði í enskri stafsetningu, sem fer sjaldan eftir löndum eða landsvæðum heldur frekar eftir aldri heitanna, er munur á því hvort heiti er ritað í tveimur orðum með stafbili á milli, í tveimur orðum með tengistriki á milli eða í einu orði. Gott dæmi um þetta er enska heitið fyrir gagnasafn. Það er í nýjum bókum ávallt ritað í einu orði, database. En upphaflega var það ritað í tveimur orðum, data base, og á tímabili með tengistriki, data-base. Ensk-íslensku orðaskránni er raðað óháð stafbilum og tengistrikum, eins og venja er í enskum orðabókum, en þá verður enskt heiti á sama stað í röðinni hvort sem það er ritað með eða án stafbils eða tengistriks.

Heiti úr öðrum fræðigreinum

Í skilgreiningum og skýringum koma fyrir nokkur heiti úr öðrum fræðigreinum sem e.t.v. þarfnast skýringa. Þeirra er þá að leita í viðkomandi fræðigrein. Sum þeirra má leita uppi í orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Meðal þessara heita eru eftirfarandi, ásamt enskri þýðingu og heiti fræðigreinar:

boðnám hk. programmed learning (uppeldis- og sálarfræði)
eðlisstærð kv. physical quantity (eðlisfræði)
flæðishrökk hk. flux transition (eðlisfræði)
leysir kk. laser (eðlisfræði)
logri kk. logarithm (stærðfræði)
mengi hk. set (stærðfræði)
milligilda so. interpolate (stærðfræði)
millihnitakerfi hk. intermediate coordinate system (stærðfræði)
slétta kv. plane (stærðfræði)

Vefföng

Lesendum, sem hafa aðgang að veraldarvefnum, er bent á þessi vefföng:
Orðabanki Íslenskrar málstöðvar: http://www.ismal.hi.is/ob/
Enska tölvuorðasafnið FOLDOC: http://wombat.doc.ic.ac.uk/

Stefán Briem