þremill - hamburger icon

Sigrún Helgadóttir 22. Feb 2015
Efst í hægra horninu í vefsjánni minni (Chrome) eru þrjú feit strik. Þegar músinni er beint yfir teiknið er mér bent á að þarna geti ég stillt og stýrt vefsjánni. Þetta teikn mun vera hluti af mörgum vefsjám og öðrum forritum. Fyrsta tillaga var að kalla þetta "þrístrik". Það hefur þann ókost að til er táknið "þrístrik" sem er notað í stærðfræði (sjá ritið "Íslensk táknaheiti" á síðu Tölvuorðasafns) og er þrjú grönn strik. Þrístrik er annað hvort aljafnaðarmerki (identical with) eða samleifingarmerki (congruent with). Þrjú feitu strikin í vefsjánni munu vera kölluð "hamburger icon" eða "hamburger menu" í ensku þar sem teiknið minnir á þriggja laga hamborgara. Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur lagði til að teiknið fengi heitið "þremill". Þetta teikn mun vera nokkuð gamalt í tölvutækninni og var fyrst notað í Xerox Star vinnustöðinni (frá 1981) sem hafði eitt af fyrstu myndrænu viðmótunum sem var hannað af Norm Cox.